Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Monthly Archives: May 2010

 • Kolskeggur kominn í netverslun okkar- sannarlega spútnikflugan í laxveiðinni í fyrra

  Lengri útgáfan af Kolskegg flottúpu. 1,5 tomma. Laxinn hreinlega bilast þegar hann sér þessa flugu í vatninu eins og dæmin sanna.

  Kolskeggur flottúpa. 1,5 tomma. Laxinn hreinlega bilast þegar hann sér þessa flugu í vatninu eins og dæmin sanna.

  Við á Krafla.is þökkum fyrir alla tölvupóstana og allar sögurnar sem flugan okkar Kolskeggur færði veiðimönnum síðasta sumar um leið og við tilkynnum að Kolskeggur er nú aftur fáanlegur í netverslun okkar en flugan seldist upp sl. haust.

  Krafla.is hóf starfsemi 2005 og höfum við ekki áður heyrt aðrar eins sögur af flugu og tökum sem eru henni tengdar. Kolskeggur var tvímælalaust spútnikflugan í fyrra og margar frásagnir veiðimanna um allt land sem sanna þá fullyrðingu okkar. Strax snemma sumars í fyrra varð ljóst að Kolskeggur var fluga sem var fær um að slá í gegn. Um tíma veiddist helmingur dagsafla í Norðurá á Kolskegg. Hvar sem veiðimenn reyndu Kolskegg reyndist hann frábærlega og margir veiðimenn sem sendu okkur línu áttu ekki orð til að lýsa frekjunni og látunum í tökunum. Í langflestum tilfellum var um flottúpu að ræða, annað hvort á dauðareki eða á stuttum taumi á sökkenda. Og þá gjarnan strippað hratt og örugglega. Kolskeggur reyndist einnig afburðavel sem þyngd kopartúpa og þríkrækja.

  Reyndir leiðsögumenn sem og almennir veiðimenn reyndu Kolskegginn víða með stórkostlegum árangri sl. sumar. Og alltaf fylgdu með þessar stórkostlegu sögur af tökunum. Það skemmdi svo ekki fyrir að jafnan var þess getið að flugurnar reyndust vel og ég man eftir veiðimönnum sem sögðu mér frá því að þeir veiddu 6-8 fiska á túpurnmar og það sá ekki á þeim eftir þessar viðureignir. Til mín kom organisti frá suðurnesjum með Kolskegg flottúpu sem gefið hafði fjölmarga fiska og hún var eins og ný eftir öll átökin.

  Og hafi einhverjir veiðimenn efast um hæfileika Kolskeggs í sjóbirtingsveiði þá skulu þeir hinir sömu halda lestrinum áfram. Við erum staddir á stórkostlegum sjóbirtingsmiðum í nágrenni Kirkjubæjarklausturs um miðjan október.  Við erum staddir neðarlega á veiðisvæðinu. Þar hafa fiskar verið að taka Kröflutúpur okkar en áhuginn verið mismikill enda kuldinn skelfilegur, varla hægt að standa við ána lengur en nokkrar mínútur í senn. Klukkan er langt gengin í sex og ég segi við veiðifélagann að nú sé stund Kolskeggs runnin upp. Nú skuli hann standa undir nafni ef hann sé á annað borð boðleg fluga í sjóbirting.

  Svo viss var ég um árangurinn að ég sagði veiðifélaga mínum að hafa tökuvélina í gangi. Tók hann mynd af mér þegar ég hnýtti Kolskegginn á taumendann og hélt áfram myndatökunni þar til ég hafði landað góðum sjóbirtingi skömmu síðar. Veiðifélaginn tók síðan stöng sína og fór í fótspor mín. Eftir nokkrar mínútur sá ég fremsta hluta tvíhendunnar hjá honum sökkva í vatnið. Slík var takan þegar birtingurinn réðist á Kolskegginn. Þegar hér var komið sögu hafði félagi minn einungis heyrt af grimmdarlegum tökum þegar Kolskeggur var annars vegar. Þegar birtingurinn  var kominn í land horfði hann yfir hylinn og sagði: ,,Núna skil ég hvað allir þessir veiðimenn eru að meina þegar þeir eru að tala um Kolskegginn."

  Kolskeggur er ný fluga á markaðnum hérlendis en hún er alls ekki ný fluga í boxum okkar á Krafla.is  Á næstu dögum munum við segja frá fæðingu Kolskeggsins og hvernig hann reyndist í sinni fyrstu veiðiferð saumarið 1970.

  -SK

1 Hlutir

© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík